Forsætisráðherra lofar starfsemi Tungumálatöfra

by | okt 7, 2021 | Uncategorized

Forsætisráðherra Íslands fór lofsamlegum orðum um starfsemi Tungumálatöfra, en hún sótti málþing okkar í ár. Á Facebook-síðu sinni segir hún: 
Góður og gefandi dagur á Ísafirði. Ég tók þátt í árlegu málþingi Tungumálatöfra sem haldið var í samstarfi við prófessorsembætti Jóns Sigurðssonar í Edinbogarhúsinu og var umfjöllunarefnið  íslenskukennsla í fjölmenningarsamfélagi. Á tungumálanámskeiðum Tungumálatöfra er unnið magnað starf þar sem íslenskukunnátta barna sem eiga íslensku að öðru máli eða eitt af mörgum tungumálum er örvuð. Þannig gefa þessi námskeið börnum sem hingað koma annars staðar frá dýrmætt veganesti og hjálpa þeim að skilja, tengjast öðrum og láta hæfileika sína og hugmyndir blómstra í nýju málaumhverfi. Barnamenningarsjóður hefur styrkt þetta verkefni.

Við þökkum Katrínu þessi fallegu orð og þökkum henni sem öðrum gestum innilega fyrir þátttökuna. Allt skiptir þetta máli í því viðfangsefni að hola steininn sem íslenskukennsla er í því fjölmenningarsamfélagi sem nú þrífst á Íslandi.