Málþing Tungumálatöfra

Frá árinu 2019 hafa Tungumálatöfrar haldið málþing í samstarfi við Prófessorsembætti Jóns Sigurðssonar á Hrafnseyri. Málþingin hafa verið mikilvægt innlegg í umræðuna um þróun íslenskukennslu og markmið hennar. Síðastliðin ár hefur fjölbreyttur hópur gesta sótt málþingið og hafa Tungumálatöfrar notið góðs af innleggi sérfræðinga sem fjallað hafa um viðfangsefnið frá ólíkum áttum.

Íslenskukennsla í fjölmenningarsamfélagi var yfirskrift málþings Tungumálatöfra árið 2021. Tilgangurinn var að efla umræðuna um hvernig þróa megi íslenskukennslu í því fjölmenningarsamfélagi sem Ísland er orðið. Lærðir sem leiknir ræddu markmið og gildi íslenskukennslu barna og fullorðinna með annað móðurmál en íslensku. Er það trú Tungumálatöfra að málþingið hafi varpað ljósi á það hve nauðsynleg fjölbreytt íslenskukennsla er fyrir innflytjendur á Íslandi og hversu mikilvægur þáttur hún er í því að skapa hér opið samfélag með jafnari tækifærum.

 

Meðal spurninga sem var leitað svara við er hvernig gera megi aðgengilegra námsefni og bæta námsaðferðir í íslenskukennslu og hver áhrif tungumálakennsla á samfélagsþátttöku eru. Þá var rætt hvernig við getum stuðlað að því að íslenskan verði nýtt sem tæki til þess að samstilla en ekki sundra og hvert er hlutverk stjórnvalda í þessum verkefnum.
Niðurstöður málþingsins verða nýttar sem grunnur að stefnu Tungumálatöfra sem og við þróun vefskóla sem er nýtt verkefni hjá Tungumálatöfrum.