Vefskólinn fer vel af stað!

by | nóv 1, 2021 | Uncategorized

Kæru vinir og velunnarar TungumálatöfraFyrr í mánuðinum lauk fyrsta námskeiðinu sem við höfum haldið undir formerkjum Vefskóla Töfrabarnanna. Námskeiðið sóttu tvítyngd börn búsett hér á Íslandi sem og tvítyngd börn búsett utan landssteinanna sem vildu skerpa aðeins á íslenskunni sinni. Kennarar á námskeiðinu voru okkar einstöku Dagný Arnalds, Jóngunnar Biering og Álfrún Gísladóttir.Við vorum svo lánsöm að fá styrk til þessa verkefnis frá Barnamenningarsjóði, sem og frá Prófessorsembætti Jóns Sigurðssonar, annars hefði þessi þróunarvinna ekki getað átt sér stað – svo við segjum: innilegar þakkir fyrir okkur ❤

Til að vefskólinn gæti átt sér stað þurftum við að eignast heimasíðu sem gæti hýst skólann og erum við afskaplega stolt af https://tungumalatofrar.is/ Það var hún Sunna Einarsdóttir hjá Mikaro sem sá um gerð hennar, en Lára Garðarsdóttir sem hefur séð um mest alla hönnunarvinnu Tungumálatöfra hannaði útlit hennar. Vefskólinn lukkaðist ljómandi vel og var himneskt að sjá hversu dásamlega virkir þátttakendur börnin voru. Við höfðum svo sem vissar væntingar um að hugmyndafræði Tungumálatöfra myndi skila sér vel í gegnum vefinn – en ég þori að fullyrða að innlifun barnanna hafi farið fram úr okkar björtustu vonum. Takk elsku duglegu töfrabörn!

Við fengum fallegar umsagnir frá börnum og foreldrum sem hvetur okkur áfram:

Einn af þátttakendum: (nafn) er mjög ánægð með töfravefskólann og sagði mér að henni hafi þótt allt skemmtilegt. Henni þykir gaman að syngja og föndra. Þemun voru mjög skemmtileg.

Foreldri: Vefskólinn er vonandi kominn til að vera. Hann getur gefið svo mörgum börnum sem búa erlendis tækifæri á að viðhalda og bæta við þekkingu sína á íslensku. Einnig gefur vefskólinn möguleika á að börnin kynnist öðrum börnum.

Foreldri: Ég vil fyrst hrósa þeim sem voru að kenna hversu góður andi var og hversu hvetjandi þið voruð. Góð samvinna á meðal stjórnenda. Jóga var mjög sniðugt með að vinna með hreyfingu og leik með orðunum. Bravó! Takk fyrir að tala við alla af virðingu og passa upp á að allir tóku þátt. Þið voruð yndisleg.

Við stefnum á næsta vefnámskeið eftir áramótin og hlökkum til að halda þessari skemmtilegu þróunarvinnu áfram.